Allt að 1000 hleypt inn á leiki um helgina í tilraunaskyni

Allt að 1000 áhorfendur fá að sækja átta leiki í The Football League um helgina en undir þann ramma falla lið í Championship, League One og League Two.

Þetta er tilraunaverkefni á milli yfirvalda heilbrigðis- og menningarmála í Bretlandi og stjórnar The Football League. Þetta er um leið fyrsta alvöru skrefið í þá átt að leyfa áhorfendur á leikjum á ný.

Tiltölulega stutt er síðan að 2.500 manns fengu að horfa á vináttuleik Brighton og Chelsea. Ekki er vitað til þess að nein neikvæð eftirköst hafi orðið af þeirri tilraun.

Áhorfendabann á knattspyrnuleikjum er þegar farið að bíta grimmt á mörg smærri lið, sem byggja rekstur sinn að stórum hluta á tekjum á leikdegi. Tvö fornfræg félög hafa þegar fallið í valinn, Bury í vor og nú Macclesfield í vikunni. Mörg smálið standa mjög höllum fæti.

Belgar, Frakkar og Þjóðverjar hafa nú þegar allir hleypt takmörkuðum fjölda áhorfenda á valda leiki án þess að vitað sé um nein eftirköst vegna þess.

Forráðamenn Premier League þrýsta nú mjög fast á yfirvöld að standa við fyrri fyrrirheit um að heimila áhorfendur á leikjum í október. Hugmyndir Premier League ganga út á að gera tilraunir með 25-35% af hámarksfjölda til að byrja með og auka svo smám saman fjöldann ef ekki verður neitt bakslag.

Hvernig til tekst um helgina kemur væntanlega til með að ráða miklu um hvenær og hvernig næstu skref verða tekin á Englandi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *