
Fyrir þau ykkar sem aldrei hafa komið í Cavern Club (við reiknum með að stærstur hluti hópsins hafi ekki komið þarna áður) er nauðsynlegt að gera sér strax grein fyrir því að þetta er tónlistarklúbbur eins og þeir gerast bestir – en ekki tónleikasalur með hefðbundnum sætum.
Cavern Club lék stórt hlutverk á upphafsárum Bítlanna og alls spiluðu þeir 274 sinnum í þessu litla rými, sem var undantekningalítið stappfullt af fólki.

Staðsetning Cavern Club er sérstök. Frá Mathew Street er gengið niður rúmgóðar tröppur og klúbburinn er í raun á 3. hæð undir yfirborði jarðar! Óneitanlega sérstök upplifun fyrir flesta, a.m.k. í fyrsta sinn. Cavern klúbburinn er í raun eins og þreföld göng eða hvelfingar.

Tónleikar Jóns Ólafssonar verða í Cavern Lounge, sem er hliðarsalur út frá „göngunum“ eins og það er oft kallað, sjá mynd hér t.v.
Cavern Lounge er lítið rými sem hentar frábærlega fyrir uppákomur eins og þessa. Það er samt ekki minna en svo að sjálfur Sir Paul McCartney spilaði þarna síðast fyrir stappfullum sal árið 2018 en þá voru auðvitað engin sæti.

Allur hópurinn á að komast þarna ágætlega fyrir og þar sem sviðið er í seilingarfjarlægð verður þetta vonandi bæði skemmtileg og „kósí“ stemning.
Í salnum verður barþjónusta fyrir hópinn, þannig að stutt er að sækja sér hressingu ef skortur er á slíku.
Love me do 60 ára
Fyrsti smellur Bítlanna, Love me do, kom út árið haustið 1962 og fagnar því 60 ára afmæli um þessar mundir. McCartney samdi þetta lag hins vegar árið 1959, þá aðeins 17 ára gamall.
Lagið komst í 17. sæti breska vinsældalistans en þegar lagið kom út í Bandaríkjunum árið 1964 rauk það beint í 1. sæti Billboard-listans.
Hér í lokin eru svo nokkrir hlekkir á áhugavert efni, sem gaman væri fyrir fólk að skoða. Ef þið hafið séð þetta allt saman sakar ekkert að horfa á það aftur!
Carpool caraoke – James Corden og Paul McCartney
Bítlarnir í Cavern Club árið 1962
Paul McCartney ásamt Dave Gilmour (Pink Floyd) og Ian Paice (Deep Purple í Cavern Club 1999
Umsagnir
Það eru engar umsagnir enn.